AlDia Descargas CabeceraHero 2880x940 2 AlDia Descargas CabeceraHero 2880x940 2

Sagan

Sagan á Íslandi

Saga Coca-Cola á Íslandi

Árið 1886 blandaði bandaríski lyfjafræðingurinn dr. John Styth Pemberton gosdrykk sem nefndur var Coca-Cola. Drykkurinn varð fljótt eins konar þjóðardrykkur Bandaríkjanna og öðlaðist einnig miklar vinsældir um heim allan á skömmum tíma.

Coca-Cola er eitt þekktasta vörumerki heims. Sama má segja um hina sérstæðu Coca-Cola flösku sem þróuð var til að aðgreina drykkinn frá öðrum gosdrykkjum og kom á markað árið 1915.  Í dag eru vöruumbúðir Coca-Cola fjölbreyttar og var Coca-Cola á Íslandi til að mynda meðal fyrstu fyrirtækja í heiminum til að framleiða allar plastumbúðir úr 100% endurunnum plastflöskum, sem er risastórt skref í átt að hringrásarkerfi í virðiskeðjunni.

 

 

Coca-Cola á Íslandi

Saga Coca-Cola á Íslandi teygir sig frá íslenskum stórkaupmönnum fyrir miðja síðustu öld, til Spánar, til Vestur-Evrópu og svo síðar einnig til Eyjaálfu og Indónesíu. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar gerði Björn Ólafsson, stórkaupmaður, samning við The Coca-Cola Company í Bandaríkjunum um stofnun verksmiðju á Íslandi, og 1. júní 1942 tók verksmiðjan Vífilfell til starfa að Haga við Hofsvallagötu í Reykjavík, sem einkaframleiðandi Coca-Cola á Íslandi. Í fyrstu voru starfsmenn einungis 14 og framleiðslan eingöngu litlar glerflöskur, framleiddar í einni vélasamstæðu.  Drykknum var strax svo vel tekið að árið 1949 voru keyptar nýjar vélar sem tvöfölduðu afkastagetuna, og árið 1958 var afkastagetan meira en tvöfölduð á ný. Árið 1972 var svo komið að unnið var allan sólarhringinn í gömlu verksmiðjunni að Haga. Árið 1973 urðu tímamót er framleiðslan flutti í nýtt og stærra húsnæði að Stuðlahálsi 1. Nýja verksmiðjan var búin nýtísku vélum sem gátu framleitt allt að 140.000 glerflöskur á dagvakt.

Árið 2005 hóf fyrirtækið að flytja inn og selja vín og sterkt áfengi, byrjaði smátt með fáum birgjum, og hefur sú starfsemi síðan vaxið og dafnað og er orðin umtalsverð. Fimm árum síðar hófst svo sala á kaffi og kaffitengdum vörum og þjónustu fyrir veitingamarkað og má segja að á þeim tíma hafi fyrirtækið orðið alhliða drykkjarvörufyrirtæki.   
 

Alhliða drykkjavörufyrirtæki

Í kringum aldamótin urðu miklar breytingar á eignarhaldi Vífilfells því  árið 1999 var fyrirtækið selt til Coca-Cola Nordic Beverages og síðan keypt af íslenskum fjárfestum tveimur árum síðar.  Um svipað leyti var Vífilfell sameinað Sól-Víking, leiðandi fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og sölu á ávaxtadrykkjum, bjór, orkudrykkjum, íþróttadrykkjum og plöntumjólk. 

Við sameininguna fór fyrirtækið úr því að vera hefðbundið gosdrykkjafyrirtæki yfir í að vera alhliða drykkjarvörufyrirtæki. Stærsta breytingin var sú að við sameininguna bættist einnig við bjór, framleiddur í Víking Brugghúsi, verksmiðju fyrirtækisins á Furuvöllum á Akureyri, og þar af leiðandi jukust umsvif fyrirtækisins til muna við sölu á áfengum drykkjarvörum.


Vífilfell verður að Coca-Cola á Íslandi

Árið 2011 urðu aftur breytingar á eignarhaldi Vífilfells þegar spænski drykkjavöruframleiðandinn Cobega keypti fyrirtækið. Árið 2016 sameinaðist Cobega Coca-Cola European Partners, stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum, og fékk Vífilfell þá nafnið Coca-Cola European Partners á Íslandi, í daglegu tali kallað Coca-Cola á Íslandi.

Árið 2021 stórjók CCEP umsvif sínu á heimsvísu og breytti við það nafninu í Coca-Cola Europacific Partners, og heitir íslenska dótturfyrirtækið nú Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi. CCEP er stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum og er leiðandi fyrirtæki á markaði fyrir neytendavörur í Evrópu, Eyjaálfu og Indónesíu. Fyrirtækið er á hlutabréfamarkaði, starfar í 29 löndum og dreifir og markaðssetur fjölda af vinsælustu drykkjavörumerkjum heims til yfir 600 milljóna neytenda.

Þrátt fyrir nafnaskipti hefur starfsemin hér á landi er rekin á sömu íslensku kennitölunni frá upphafi. Coca-Cola á Íslandi er einn stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins og meðal stærstu matvælafyrirtækja á Íslandi. 

Sem hluti af stærri heild hefur Coca-Cola á Íslandi mikla burði til að þróa starfsemi sína og til að laga sig hratt að breytingum á markaði og leggur fyrirtækið metnað í að bjóða íslenskum neytendum upp á frábæra þjónustu og vöruval sem er á pari við lönd þar sem markaðurinn telur tugi milljónir neytenda.